4.500 flugferðum aflýst

Flugfarþegar bíða eftir innritun í flug sín á O'Hare-flugvellinum í …
Flugfarþegar bíða eftir innritun í flug sín á O'Hare-flugvellinum í Chicago í gær en búið er að aflýsa á fimmta þúsund flugferða í Bandaríkjunum í gær og í dag. AFP/Kamil Krzaczynski

Tæplega 177 milljónir Bandaríkjamanna munu fara inn í jólahátíðina með veðurviðvaranir í eyrum vegna ískulda og hvassviðris sem veðurstofan National Weather Service, NWS, varar við að geti skapað aðstæður verulega háskalegar fólki og dýrum.

Þá er von á miklu fannfergi, einkum í Miðvesturríkjunum, og veðurfyrirbæri sem þarlendir veðurfræðingar kalla sprengifellibyl eða „bomb cyclone“ en sá getur náð styrk fellibyls í öðrum flokki, það er byls með vindhraðann 43 til 49 metrar á sekúndu. Sprengibylur þessi er að sögn veðurfréttamanns í Buffalo í New York nokkuð sem gerist ekki nema einu sinni á tíma hverrar kynslóðar.

Flórída engin undantekning

Snjókoman á þessu svæði gæti numið rúmum fimm sentimetrum á klukkustund sem að sögn veðurstofunnar táknar nær ekkert skyggni á vegum og eru ökumenn varaðir sérstaklega við að vera á ferli.

Íbúar í nánast öllum ríkjum Bandaríkjanna, frá kanadísku landamærunum að þeim mexíkósku, finna fyrir þessu kuldalega jólaveðri með einum eða öðrum hætti, ekki síst hvað samgöngutruflanir snertir en í gær var 2.350 flugferðum aflýst um allt landið og það sem af er deginum í dag hefur rúmlega 2.120 til viðbótar verið aflýst, samtals 4.470 ferðum.

Maður við mokstur á heimreið sinni í Provo í Utah. …
Maður við mokstur á heimreið sinni í Provo í Utah. Fannfergi og hvassviðri er jólaveðrið í langflestum ríkjum Bandaríkjanna þetta árið. AFP/George Frey

Loka þurfti tæplega 550 kílómetra löngum kafla Interstate 90-þjóðvegarins í Suður-Dakóta í báðar áttir í gær, frá Rapid City til Sioux Falls, vegna byls sem byrgði ökumönnum alla sýn og jafnvel sólskinsríkið Flórída mun ekki fara varhluta af kuldakastinu að sögn veðurfræðinga, þar muni hitastig lækka töluvert í dag auk þess sem snjókomu var spáð í Suðurríkjaborgunum Nashville og Memphis í gær.

Joe Biden Bandaríkjaforseta var gerð grein fyrir stöðu mála í …
Joe Biden Bandaríkjaforseta var gerð grein fyrir stöðu mála í gær. AFP/Brendan Smialowski

Joe Biden Bandaríkjaforseta var gerð grein fyrir stöðu mála í gærmorgun og hvatti hann þjóðina til að heyra boðskap og aðvaranir veðurspámanna og hafa í heiðri. „Þetta eru mjög alvarlegar veðuraðvaranir,“ sagði Biden og bætti því við að haft hefði verið samband við 26 ríkisstjóra víða um land vegna aðvarananna.

Reuters

CNN

New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert