Miklar tafir á breskum flugvöllum vegna verkfalla

Langar raðir hafa myndast við landamæraeftirlit á breskum flugvöllum.
Langar raðir hafa myndast við landamæraeftirlit á breskum flugvöllum. AFP/Kamil Krzaczynski

Gera má ráð fyrir miklum töfum við vegabréfsskoðun á breskum flugvöllum í dag og næstu daga, vegna verkfalla tollvarða sem annast landamæraeftirlit.

Fyrirhugað er að tollverðir muni leggja niður vinnu á hverjum degi fram til áramóta, nema þann 27. desember.

Aðgerðirnar eru hluti af verkfallshrinu opinberra sarfsmanna sem krefjast betri kjara, en í vikunni hafa bæði hjúkrunarfræðingar og sjúkraflutningamenn einnig farið í verkföll.

Um þúsund tollverðir taka þátt í verkfallinu í dag, sem talið er að muni hafa áhrif á um 250 þúsund farþega sem fara í gegnum flugvelli í Bretlandi í dag.

Bresk stjórnvöld greindu frá því fyrr í desember að herinn yrði fenginn til að sinna landamæraeftirliti á meðan verkföll stæðu yfir, en fólk mætti engu að síður gera ráð fyrir miklum töfum. Þá gæti það farið svo að raskanir yrðu á flugi vegna verkfallanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert