„Jólunum er aflýst“

Maður á ferð í særoki í Lynn í Massachusetts á …
Maður á ferð í særoki í Lynn í Massachusetts á Þorláksmessu. Við austurströnd Bandaríkjanna lifa íbúarnir nú sín köldustu jól í áratugi. AFP/Joseph Prezioso

Að minnsta kosti tíu manns hafa látið lífið í Bandaríkjunum frá því á miðvikudaginn í þeim ískulda og stífu vindátt sem verið hefur ráðandi veðurástand í flestum ríkjum landsins síðustu daga en kaldast varð í Montana í gær þegar frost þar fór niður í -45,6 gráður á selsíuskvarða.

Þá hafa samtals yfir milljón íbúar nokkurra ríkja verið án rafmagns síðan í gær auk þess sem Kanadabúar glímdu við það sama, þar voru 260.000 manns án rafmagns í gær í fylkjunum Quebec og Ontario.

Miklar truflanir hafa orðið á öllum samgöngum, hvort sem er á vegum, teinum eða í lofti, í New York ollu flóð því að Long Island-lestin hætti að ganga og mörg þúsund flugferðum hefur verið aflýst síðustu daga með tilheyrandi afleiðingum fyrir Bandaríkjamenn sem ætluðu sér að vera á faraldsfæti um hátíðina.

Mannskæð umferðarslys víða

„Jólunum er aflýst,“ hefur fréttastofa CNN eftir Mick nokkrum Saunders, íbúa í Buffalo í New York-ríki sem átti við að fjölskyldan hefði hætt við að koma saman þessi jólin. „Öll fjölskyldan og vinir mínir eru á því að það sé öruggast,“ segir Saunders enn fremur.

Í Kansas létust þrír í þremur umferðarslysum á miðvikudagskvöldið, einu veðurtengdu og tveimur líklega veðurtengdum en rannsókn á eftir að leiða það í ljós. Aðrir þrír týndu lífinu í Kentucky, tveir þeirra í umferðarslysum og sá þriðji varð úti. Fjögur dauðsföll urðu svo í Ohio í umferðarslysum sem lögregla segir öll tengjast óveðrinu.

Ískalt loftið teygir sig alla leið að strönd Mexíkóflóa og landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna og við austurströndina lifa íbúarnir nú köldustu jól í marga áratugi.

Sky News

CNN

BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka