Bandaríkin gera kröfu um að farþegar frá Kína framvísi neikvæðu kórónuveiruprófi við komu, þar sem stjórnvöld í Peking hafi ekki upplýst nægilega vel um fjölda smita, ný afbrigði og smitrakningu þar í landi, að því er fram kemur í tilkynningu Sóttvarnamiðstöðvar Bandaríkjanna.
Frá 5. janúar munu allir farþegar, að undanskildum börnum undir tveggja og hálfs árs, sem koma frá Kína, þurfa að skila neikvæðu veiruprófi að minnsta kosti tveimur dögum fyrir brottför til flugfélaga sem flogið er með.
„Við kynnum þetta skref til þess að hægja á útbreiðslu Covid-19 í Bandaríkjunum á meðan tilfellum fjölgar hratt í Kína. Við höfum ekki fengið fullnægjandi faraldsfræðileg og veirufræðileg gögn frá kínverskum stjórnvöldum,“ segir þar.
Hröð fjölgun Covid-19 smita í Kína auki þannig líkur á því að ný afbrigði skjóti uppi kollinum að sögn embættismanna stofnunarinnar.
Stjórnvöld í Peking hafi einungis veitt takmarkaðar upplýsingar um afbrigði sem þar eru að ganga, smitfjölda og sýnatöku.
„Vegna þessa skorts á gögnum er erfiðara fyrir heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum að bera kennsl á ný afbrigði sem gætu borist til Bandaríkjanna,“ sagði embættismaður stofnunarinnar á fundinum.