Rússar berjast með úkraínska hernum

Fimmtugur Rússi sem berst við hlið Úkraínu.
Fimmtugur Rússi sem berst við hlið Úkraínu. AFP

„Ég er ekki svikari,“ segir rússneskur hermaður sem berst þó fyrir úkraínska herinn í stríðinu í Úkraínu. 

Leynd skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þá Rússa sem hafa kosið að berjast við hlið Úkraínumanna í stríðinu og þeir koma því sjaldan fram undir nafni, auk þess sem úkraínsk yfirvöld upplýsa ekki um nákvæman fjölda þeirra. 

Fréttastofa AFP ræddi þó við einn þeirra. „Ég er ekki að berjast gegn föðurlandi mínu, ég er að berjast gegn stjórn Pútíns, gegn illsku. Ég er sannur föðurlandsvinur og mér er annt um framtíð Rússlands.“

Nokkur hundruð Rússar í úkraínska hernum

Nokkur hundruð Rússar hafa gengið til liðs við úkraínska herinn frá því að innrás Rússlands hófst í Úkraínu. Þurftu þeir að fara í gegnum nokkur viðtöl, sálfræðikannanir og jafnvel lygamælingar, til þess að ganga úr skugga um tryggð þeirra. 

Hlutu þeir tveggja mánaða þjálfun og voru svo sendir á vígvöllinn í Donbass-héraðinu og bænum Bakmút.

„Þeir eru metnaðarfullir og faglegir baráttumenn, þeir sinna starfi sínu óaðfinnanlega,“ segir úkraínskur herforingi.

Fjöldi hinna rússnesku hermanna Úkraínuhers er ekki svo mikill að hann skipti sköpum hernaðarlega. Þátttaka þeirra hefur aftur á móti töluvert pólitískt vægi. 

Í heimsókn í Úkraínu þegar innrásin hófst

Annar hermaður, sem AFP ræddi við, gengur undir dulnefninu „Þögli“. Þögli er kvæntur úkraínskri konu sem hann kynntist í Rússlandi. Þar bjuggu þau áður en stríðið hófst og eiga saman tvö börn. Þau voru í heimsókn hjá fjölskyldu konunnar þegar innrás Rússa hófst og hafa ekki snúið til Rússlands síðan. 

Þögli segist vera í litlum samskiptum við fjölskyldu sína í Rússlandi, enda hafi þau verið „svolítið heilaþvegin“. Hann er enn með rússneskt vegabréf og getur ekki fengið því breytt fyrr en stríðinu er lokið. „Um þessar mundir er ég með vegabréf óvinarins.“

Þögli ber Úkraínufánann og rússneska friðarfánann.
Þögli ber Úkraínufánann og rússneska friðarfánann. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka