Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, vaknaði klukkan sex í morgun og heyrði þá gífurlega öfluga sprengingu. Síðan þá hefur hann heyrt um átta slíkar til viðbótar.
„Þetta er eins og 40 tívolíbombur springi á sama tíma. Það hristist allt og skelfur, misjafnlega mikið samt eftir því hve langt í burtu það er. Þessar eru mjög öflugar og greinilega komnar inn fyrir borgarmörkin,“ segir Óskar.
Hljóðið stafar af því að loftvarnir eru að hæfa loftskeyti Rússa, sem er í samræmi við upplýsingar frá stjórnvöldum til íbúa í Kænugarði, auk þess sem Óskar kveðst geta greint það glöggt af hljóðinu.
„Það er svakalegur munur á hljóðinu þegar loftskeytin ná að lenda og þegar þú heyrir í loftvörnunum hæfa þau. Þegar þau lenda þá er það eins og sleggja sé lamin í jörðina og svo varir hljóðið lengur því brak og drasl fylgir.“
Brak úr einu loftskeytinu lenti á íbúðarhúsi í útjaðri Kænugarðs og við það kom upp eldur, en Óskar hefur ekki enn fengið upplýsingar um meiðsli á fólki. Verið er að senda herlið inn til Kænugarðs.
„Þetta er örugglega stærsta árásin hingað til. Þeir eru að skjóta frá skipum og kafbátum á Svartahafi og úr flugvélum.“
Óskar segir að Rússar hafi beitt þessari sömu árásaraðferð frá því 11. október. Þetta sé því ellefta árásin í röð af þessum toga. „Ég er orðinn sjóaður í að höndla stressið sem fylgir. Manni bregður samt í hvert skipti sem maður heyrir í svona sprengingu.“
Spurður hvort hann leggi í vana sinn að leita skjóls í byrgi þegar svona loftárásir dynja á borginni segist Óskar ekki gera það. „Maður ætti örugglega að gera það og einhverjir gera það, en þá ættum við eiginlega bara heima í kjallaranum. Þetta er kaldur og skítugur moldarkofi. Eftir 10 mánuði í stríði þá eru svona árásir orðnar svo vanalegar,“ greinir hann frá.