Rússar gerðu umfangsmiklar eldflaugaárásir á Úkraínu í morgun, þar á meðal á höfuðborgina Kænugarð, að sögn úkraínska hersins.
„29. desember. Stór eldflaugaárás...Óvinurinn ræðst á Úkraínu úr ýmsum áttum bæði með eldflaugum úr lofti og frá hafi úti með flugvélum og skipum,“ sagði úkraínski flugherinn á samfélagsmiðlum.
Að sögn Oleksí Arestovyh, ráðgjafa Úkraínuforseta, var yfir 100 eldflaugum skotið á úkraínskar borgir í „þó nokkrum bylgjum“, að því er BBC greinir frá.
Að minnsta kosti tvær sprengingar heyrðust í Kænugarði.
Rússar hafa fjölgað loftárásum sínum á Úkraínu að undanförnu, annað hvort með eldflaugum eða drónum, og beint sjónum sínum að orkuinnviðum.
90% borgarinnar Lviv í vesturhluta Úkraínu eru án rafmagns eftir árásirnar, að sögn borgarstjórans Andrí Sadoviy.
Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, hefur einnig varað við mögulegu rafmagnsleysi í kjölfar árásanna. Hann hvatti borgarbúa til að birgja sig upp af vatni.
Brot úr eldflaugum sem höfðu verið skotnar niður lentu á tveimur húsum í einkaeigu í austurhluta Kænugarðs.
Uppfært kl. 8.20:
Að minnsta kosti þrír eru særðir í Kænugarði af völdum loftárásanna.
„Eins og staðan er núna eru þrír særðir í Kænugarði, þar á meðal fjórtán ára stúlka. Þau eru öll á sjúkrahúsi,“ sagði Klitschko á samfélagsmiðlum.