Fulltrúar kínveskra stjórnvalda mættu á fund Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) í dag til þess að ræða bylgju kórónuveirusmita þar í landi.
Ítrekaði WHO beiðni sína um nákvæm gögn um stöðu faraldursins í Kína, sem séu reglulega uppfærð. Þá var einnig beðið um gögn sem sýndu bólusetningarhlutfall Kínverja, sérstaklega hjá viðkvæmum hópum og fólki yfir sextugu.
Brýndi WHO fyrir kínverskum stjórnvöldum mikilvægi þess að deila faraldsfræðilegum gögnum með umheiminum.
Bandarísk stjórnvöld hafa kvartað yfir upplýsingaóreiðu Kínverja, sem afléttu um þriggja ára samkomutakmörkunum í desember. Bandaríkin, Bretland, Frakkland og fleiri ríki krefjast þess að Kínverjar sem ferðast þangað skili inn neikvæðu kórónuveiruprófi.