Rússar hófu á ný loftárásir á Úkraínu í nótt með árásum á höfuðborgina Kænugarð.
„Loftvarnarkerfið virkar. Brot út svölum og gluggar í háhýsi skemmdust í Desnjanskí-hverfinu,“ skrifaði Serhí Popkó, yfirmaður stjórnsýslu borgarinnar, á Telegram, um árásina í nótt.
Ekkert lát hefur verið á árásum Rússa á nýju ári en sprengjum tók að rigna yfir Kænugarð innan við klukkustund eftir að 2023 gekk þar í garð. Að minnsta kosti fjórir létu lífið í Úkraínu í árásum yfir helgina.
Mikaílo Podolíak, aðstoðarmaður forseta Úkraínu, sagði Rússa ekki lengur með nein hernaðarleg skotmörk. Núna sé rússneski herinn að reyna að sprengja innviði og drepa eins marga óbreytta borgara og mögulegt er.