„Stríð til að drepa“

Skilti á rússnesku og úkraínsku í Dónetsk varar við jarðsprengjum. …
Skilti á rússnesku og úkraínsku í Dónetsk varar við jarðsprengjum. Rússar viðurkenna rúmlega 60 manna fall úr sínum röðum í flugskeytaárás Úkraínumanna sem er þeirra mesta mannfall í stríðinu. AFP/Sameer Al-Doumy

Rússnesk yfirvöld viðurkenndu í dag að 63 þarlendir hermenn hefðu látið lífið í flugskeytaárás Úkraínumanna á borgina Makiivka í Austur-Úkraínu og er þar um að ræða mesta mannfall Rússa í Úkraínustríðinu fram til þessa.

Það var rússneska varnarmálaráðuneytið sem greindi frá mannfallinu en í tilkynningu þess kom þó ekki fram hvenær árás Úkraínumanna hefði átt sér stað þótt talið sé að það hafi verið þegar rússneska hernámsliðið í Makiivka hringdi inn nýja árið á gamlárskvöld.

Úkraínsk hermálayfirvöld viðurkenndu ekki formlega að hafa gert árásina en kváðu mannfall í röðum Rússa þó mun meira en Rússar sjálfir hafa sagt – allt að 400 rússneskir hermenn eru sagðir hafa fallið í úkraínsku tilkynningunni.

Þrettán ára drengur særður í árás

Þá eru fimm sagðir hafa fallið í drónaárásum Rússa á nokkur skotmörk í Úkraínu á gamlársdag og nýársdag, meðal annars í höfuðborginni Kænugarði, og staðfesti Vitali Klitskó borgarstjóri að 19 ára gamall maður hefði verið lagður inn á sjúkrahús í kjölfar árásar þar.

Orkufyrirtækið Ukrenergo greindi þá frá því að rafmagnstruflanir hefðu orðið í Kænugarði eftir árásirnar og það hefði neyðst til að loka fyrir rafmagn sums staðar vegna tjónsins.

„Rússar eiga sér engin hernaðarleg skotmörk lengur heldur hafa það eina markmið að myrða eins marga óbreytta borgara og skaða eins mörg borgaraleg skotmörk og þeim framast er unnt,“ segir Míkhailo Podolyak, ráðgjafi Volódímírs Selenskí Úkraínuforseta, „þetta er stríð til að drepa.“

Árás Rússa á þorpið Naddnípríanske, skammt frá borginni Kerson, á laugardaginn hefur vakið óhug en þar særðist 13 ára gamall drengur alvarlega. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem varð svo fyrir næstu árás Rússa og skaddaðist byggingin nokkuð.

„Hvað gerði 13 ára gamall drengur þessum ómennum sem reyndu tvívegis að drepa hann?“ spyr Jaroslav Janúsjetvitsj héraðsstjóri á samfélagsmiðlinum Telegram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert