Engin orð geta lýst þessum hryllingi

Brosandi úkraínskur hermaður í borginni Bakhmút.
Brosandi úkraínskur hermaður í borginni Bakhmút. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari var nýkominn frá Bakhmút í Dónetsk-héraði þegar blaðamaður náði í hann í gær. Hann segir borgina vera í algjörri rúst eftir stanslausar árásir Rússa. „Hér falla sprengjur allan daginn og ég hugsa að 90% eða meira af borginni séu rústir einar,“ segir hann, úrvinda eftir daginn. 

Hann er núna í borginni Kramatorsk sem er ekki langt frá Bakhmút, en hann ætlar að mynda í Bakhmút alla vikuna.

Aðeins tveir kostir í stöðunni

„Það er hræðilegt ástand í borginni og bardagar alls staðar og það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu ástandi, það er svo skelfilegt,“ bætir hann við. Óskar segir að eftir tíu mánaða stríðsrekstur í Úkraínu sé honum það ljóst að þrátt fyrir eyðileggingu Rússa hvert sem litið er, þá séu Rússar að tapa stríðinu.

„Staðan á rússneska hernum er mjög slæm og þeir hafa ekki náð neinum nýjum markmiðum frá gagnárásinni í sumar. Ég held að flestir séu á því að Úkraína muni vinna þetta stríð,“ segir hann. „Það hefur allt gengið á afturfótunum fyrir Rússland síðan í sumar og þótt þeir stundi stöðugar loftárásir hefur Úkraína verið að sækja á. Þeir hafa verið að vinna til baka mjög mörg svæðanna sem Rússar náðu fyrr í stríðinu og við erum að fá meiri vopn inn í landið sem gerir Úkraínu sterkari,“ segir hann.

„Eru föst í helvíti“

„En þetta er ekki eins og fótboltaleikur og það er aldrei önnur hliðin sem vinnur. Það tapa allir í þessu stríði. Þetta kostar líf og mikla eyðileggingu. Ég sá í dag fleiri þúsund heimili sem eru ónýt og hundruð manna sem eru nú í kjöllurum og komast ekki neitt og eru bara föst inni í helvíti,“ segi hann.

Úkraínskir hermenn skjóta í átt að Rússum í útjaðri Bakhmút …
Úkraínskir hermenn skjóta í átt að Rússum í útjaðri Bakhmút 30. desember. AFP/Sameer Al-Doumy

„Orð eru ekki nógu sterk og jafnvel ekki myndir heldur, til að lýsa því hversu hræðilegt þetta er. Ég sjálfur er kominn með nokkuð þykkan skráp en þetta hefur áhrif á alla sem upplifa þetta. En Úkraína hefur bara tvo kosti í stöðunni og það er að vinna stríðið eða deyja. Þannig að baráttuviljinn er gífurlega mikill í herbúðum Úkraínumanna, ólíkt því sem maður heyrir frá Rússunum.“

Óskar segir að Rússar séu búnir að vera í fjóra mánuði að reyna að ná Bakhmút af öllum krafti og borgin hefur ekki fallið enn þá, sem segir kannski meira en nokkuð annað um stöðuna í rússneska hernum. „En þessar borgir og bæir sem Rússar hafa lagt í rúst með loftárásum eru núna á valdi Úkraínumanna og tilbúnar til uppbyggingar,“ segir Óskar og segist þrátt fyrir allt vera vongóður um að Úkraínuher muni takast að hrekja Rússa frá landinu.

Pútín ásamt hermönnum er hann flutti nýársræðu sína.
Pútín ásamt hermönnum er hann flutti nýársræðu sína. AFP/Mikhail Klimentyev/Spútnik

Pútín með heilan her illvirkja með sér

Hann segir að það sé mjög erfitt að horfa upp á ástandið í Úkraínu og að búa við þennan stríðsrekstur sé mjög andlega lýjandi, þótt hann sé viss um að Úkraína muni hafa sigur að lokum. „Það sem er svo hörmulegt er að Rússar virðast ekki geta horfst í augu við að þeir eru ekki að fara að vinna, heldur gefa þeir í loftárásirnar og reyna að eyðileggja sem mest meðan þeir geta. En þeir hafa ekki burði til að vinna. Efnahagur þeirra er í rúst, þeir hafa ekki vopn, nema eitthvað frá Íran, og það eina sem þeir virðast hafa er mannfjöldi.“

Óskar segir að þótt margir vilji ræða um Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem einræðisherra, þá sé málið ekki svo einfalt. „Hann hefur heilan her manna í kringum sig sem eru alveg jafn slæmir. Hann er með hræðilegt fólk í kringum sig sem er ekkert betra, fólk sem beitti efnavopnum á almenna borgara í Sýrlandi svo dæmi sé tekið. En það er oft einfaldara að fókusa mest á Pútín, en þetta helst allt í hendur.“ 

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari er búsettur í Kænugarði og í þessari …
Óskar Hallgrímsson ljósmyndari er búsettur í Kænugarði og í þessari viku verður hann meira og minna í Bakhmút að mynda, en mikil átök eru nú í borginni.

Komast ekki burt vegna fátæktar

Þegar hann er spurður um fólkið í kjöllurunum í Bakhmút segir hann að þeir sem hafi getað það hafi yfirgefið borgina. „Fólk getur komist í burtu og í öruggt skjól, en flestir sem eru eftir geta það ekki vegna fátæktar, eða vegna aldurs og treysta sér ekki að yfirgefa heimili sín og vera á flótta, kannski við slæma heilsu.“ Hann segir að úkraínsk yfirvöld hafi enga burði til að styðja fólk sem flýr heimili sín nema með smáupphæð, kannski tæplega tíu þúsund íslenskum krónum, og það dugi skammt.

„Þegar þú ert í þessum aðstæðum, í þessu geðveika streituástandi, þá bregst heilinn líka undarlega við,“ segir hann og rifjar upp heimsókn sína frá liðnu hausti til Soledar, borgar í Donetsk-héraði, sem var líka lögð í algjörlega rúst.

Íbúi í Bakhmút reykir fyrir framan kjallaraíbúð sína á gamlársdag.
Íbúi í Bakhmút reykir fyrir framan kjallaraíbúð sína á gamlársdag. AFP

„Það er svo erfitt að bera saumavélina út“

„Við fórum fjórar ferðir að reyna að ná í gamla konu út úr húsi, sem var í algjörri rúst og íbúðin hennar var bókstaflega aðeins hálf eftir. Hún vildi ekki fara af því að þetta var heimili hennar, þrátt fyrir að endalausar loftárásir væru í borginni. Þegar við spurðum hana af hverju hún vildi ekki fara sagði hún: „Það er svo erfitt að bera saumavélina út,“ og í öllu brjálæðinu hékk hún á því. Svo eru aðrir sem hlaupa inn og fylla ferðatöskur af bara einhverju dóti, þótt það hjálpi því ekkert á flótta, en þetta gerist vegna álagsins við að búa við svona ástand mánuðum saman.“

Óskar segir að stríð sé mjög fjölþætt og flókið vandamál. „Við viljum oft reyna að raða þessu saman í nokkrar setningar svo við skiljum þetta, þar sem allar orsakir og afleiðingar eru skýrar. En það er aldrei bara þannig. Það er ekki hægt að koma svona stríði fyrir í 300 orðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert