Alþjóðleg samtök flugfélaga hafa gagnrýnt ákvörðun stjórnvalda um að skikka ferðamenn frá Kína til að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi við komuna til annarra landa.
Samtökin segja að fljótfærni hafi ráðið ákvörðuninni.
Sífellt fleiri lönd, þar á meðal Bandaríkin, Kanada, Japan og Frakkland, hafa sett takmarkanir á alla ferðamenn frá Kína vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi eftir að kínversk stjórnvöld slökuðu á samkomutakmörkunum.
„Það eru mikil vonbrigði að sjá þessar takmarkanir settar aftur á í fljótfærni á sama tíma og þær hafa reynst árangurslausar síðustu þrjú árin,“ sagði Willie Walsh, yfirmaður samtakanna International Air Transport Association í yfirlýsingu.
300 flugfélög eru aðilar að samtökunum og ná þau yfir 83 prósent af allri flugumferð . Hann sagði að kórónuveiran væri þegar í mikilli útbreiðslu í löndunum sem hafa sett á takmarkanirnar.
„Rannsóknir sem voru gerðar vegna Ómíkron-afbrigðisins (seint á árinu 2021) sýndu að það að setja á takmarkanir á ferðalög skipti engu máli þegar smitin voru í hámarki,“ sagði Walsh.
„Við höfum verkfærin til að hafa stjórn á Covid-19 án þess að grípa til árangurslausra aðgerða sem slíta í sundur alþjóðleg tengsl, valda efnahagslegum skaða og eyðileggja störf,“ sagði hann.