Heitasta ár sögunnar í Bretlandi

Kona á gangi í London í ágúst í fyrra.
Kona á gangi í London í ágúst í fyrra. AFP/Carlos Jasso

Meðalhitastigið í Bretlandi var meira en 10 stig á síðasta ári í fyrsta sinn síðan mælingar hófust.

Breska veðurstofan staðfesti í morgun að árið 2022 hafi verið það heitasta til þessa og að meðalhitastigið hafi numið 10,03 stigum.

Frá því mælingar hófust árið 1884 hafa tíu heitustu árin mælst frá árinu 2003 og eru niðurstöðurnar í svipuðum dúr og annars staðar í Evrópu í vetur.

Tómir sólstólar í London í miðri hitabylgju í júlí í …
Tómir sólstólar í London í miðri hitabylgju í júlí í fyrra. AFP/Niklas Halle´n

Gæti orðið á þriggja til fjögurra ára fresti

Nikos Christidis, loftslagsvísindamaður hjá veðurstofunni, sagði stofnunina hafa rannsakað núverandi hitastig og borið það saman við módel án áhrifa mannfólks á loftslagið.

„Niðurstöðurnar sýna að 10 stiga hiti í hefðbundnu loftslagi eigi að verða á 500 ára fresti en miðað við núverandi loftslag gæti hann komið fram á þriggja eða fjögurra ára fresti,“ sagði hann.

Undir lok aldarinnar, án aukinna takmarkana á útblástur koltvísýrings, „mun 10 stiga meðalhiti í Bretlandi verða nánast á hverju ári“, sagði hann.

Hiti jarðar hefur aukist um rúmt 1,1 stig frá miðri 19. öld og hefur um helmingur aukningarinnar orðið á síðustu 30 árum, að því er kom fram í skýrslu Alþjóðaveðurfræðisamtakanna í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert