Frakkar hafa ákveðið að senda Úkraínumönnum skriðdreka til að hjálpa þeim að verjast innrásarliði Rússa.
Vesturlönd hafa hingað til ekki látið Úkraínumönnum skriðdreka í té í stríðinu en stjórnvöld í Úkraínu hafa ítrekað óskað eftir því að Þjóðverjar skaffi þeim skriðdreka.
Olaf Scholz kanslari Þýskalands er nú undir auknum þrýstingi vegna málsins en þýsk stjórnvöld þykja hafa dregið lappirnar í málinu og bent á að engir bandamenn Úkraínu á vesturlöndum hafi sent þeim skriðdreka.
Óskað hefur verið eftir því að Þjóðverjar skaffi Úkraínu Leopard skriðdreka en tækin sem Frakkar munu senda eru léttari.
Marie-Agnes Strack-Zimmermann fer fyrir varnarmálanefnd þýska þingsins og notaði tækifæri til að skjóta á þýsku ríkisstjórnina.
„Frakkar taka enn að sér það hlutverk sem vænst var af Þjóðverjum,“ sagði hún.