Ríkisstjórnir Hollands og Portúgal tilkynntu í dag að þær myndu krefja ferðamenn sem væru að koma frá Kína til þess að vísa fram neikvæðu Covid-prófi við komuna til landsins.
Þau slást þannig í hóp með um tólf öðrum ríkjum sem hafa sett þessa sömu reglu, þar á meðal Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland og Ítalía.
Heilbrigðisráðuneyti Hollands segir skilyrðið, sem tekur gildi á þriðjudag, vera í samræmi við tilmæli Evrópusambandsins.
Ég tel það mikilvægt fyrir okkur að setja þessar takmarkanir sem hluta af sam-Evrópskum aðgerðum gegn útbreiðslu veirunnar, hefur AFP-fréttaveitan eftir Ernst Kuipers, heilbrigðisráðherra Hollands.
Kuipers benti einnig á að Schipol-flugvöllurinn í Amsterdam væri einn stærsti flugvöllur Evrópu og sérstaklega fjölmennur í ljósi þess hve margir millilenda á honum.
Portúgölsku reglurnar taka gildi strax á morgun.
Tilmæli heilbrigðismálayfirvalda Evrópusambandsins komu á miðvikudaginn þar sem þeim tilmælum var beint til aðildarríkja að sambandið mældi sterklega með því að krefja komufarþega frá Kína um framvísun neikvæðs prófs á flugvelli.