Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna samþykkti í dag nýtt lyf sem verkar á Alzheimers-sjúkdóminn. Lyfsins hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu en það er hannað til þess að hægja á hrörnun heilastarfsemi á upphafsstigum sjúkdómsins.
Lyfið ber nafnið Leqembi en sumar klínískar rannsóknir benda til þess að lyfið geti valdið alvarlegum aukaverkunum á borð við heilablæðingu og bólgum í heila.
Prófun lyfsins fékk flýtimeðferð hjá lyfjaeftirlitinu vegna þeirrar gífurlegu eftirspurnar sem er eftir lyfjum við Alzheimers-sjúkdómnum.
Þróun lyfsins var samstarfsverkefni tveggja fyrirtækja en það eru þau Eisai, frá Japan, og Biogen, sem er bandarískt.
Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna segir lyfið, og annað systurlyf þess, vera mikilvægt skref í rétta átt í baráttunni við Alzheimers-sjúkdóminn.
„Alzheimerssjúkdómurinn heftir líf þeirra sem hann hrjáir með ómælanlegum hætti og hefur einnig skelfileg áhrif á ástvini þeirra,“ er haft eftir Billy Dunn, lyfjafræðingi hjá eftirlitsstofnuninni hjá fréttaveitu AFP.
Fyrstu niðurstöður rannsóknar á virkni Leqembi-lyfsins bendir til þess að heilahrörnun Alzheimers-sjúklinga var 27% hægari en hjá þeim sem ekki tóku lyfið.