Sex ára drengur er í haldi lögreglu í ríkinu Virginíu í Bandaríkjunum, eftir að hafa skotið kennara sinn með skammbyssu.
Í frétt BBC um málið kemur fram að ekki hafi verið um slys að ræða, heldur ásetning barnsins. Ekki liggur þó fyrir hvernig barnið komst yfir byssuna.
Kennarinn er kona á fertugsaldri, og liggur hún á gjörgæslu með lífshættulega áverka.
Ósætti hafði komið upp milli kennarans og nemandans í kennslustofunni, en nemandinn er í fyrsta bekk. Nemandinn skaut því kennarann, en ekki er talið að ógn hafi stafað af nemandanum að öðru leyti. Þannig var um einangrað tilvik að ræða.
„Þetta var ekki tilvik þar sem einhver ætlaði sér að ganga um skólann og hefja skotárás,“ er haft eftir lögreglu.
Skólanum verður lokað á mánudaginn vegna atviksins. Nemendum og foreldrum þeirra verður boðin áfallahjálp.