Þjóðverjum ráðið frá ferðalögum til Kína

Kínhverjar eru frelsinu fegnir eftir að hafa sætt hörðum takmörkunum …
Kínhverjar eru frelsinu fegnir eftir að hafa sætt hörðum takmörkunum og ferðafrelsi síðustu tvö ár. AFP/ Hector Retamal

Þýsk yfirvöld ráða borgurum landsins fá ónauðsynlegum ferðum til Kína, vegna mikillar útbreiðslu Covid-19 þar í landi.

„Við ráðum fólki frá ónauðsynlegum ferðalögum til Kína. Ástæðan er mikil fjölgun Covid smita og heilbrigðiskerfi á heljarþröm,“ skrifaði utanríkisráðherra Þýskalands á Twitter.

Undanfarnar vikur hafa yfirvöld í Kína slakað á mjög svo hörðum sóttvarnareglum þar í landi, sem höfðu verið í gildi í rúm tvö ár.

Samhliða því hefur útbreiðsla Covid-19 verið mjög hröð og eru sjúkrahús landsins yfirfull af sjúklingum sem margir hverjir hafa ekki fengið fullnægjandi bólusetningar.

Á sunnudag taka svo í gildi nýjar reglur í Kína sem auðvelda ferðalög til of frá landinu til muna og hefur Evrópusambandið mælt með því að öll ríki ESB fari fram á að kínverskir ferðamenn framvísi neikvæðum Covid-prófum við komuna til landsins.

Á annan tug ríkja hafa nú þegar krafist þess að Kínverjar framvísi vottorði um neikvætt Covid-próf, þar á meðal Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Holland Portúgal og Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert