Tvær táningsstúlkur fundust látnar í íbúð í Noregi

Endurlífgunaraðgerðir sjúkraflutningamanna báru ekki árangur. Óskað hefur verið eftir krufningu, …
Endurlífgunaraðgerðir sjúkraflutningamanna báru ekki árangur. Óskað hefur verið eftir krufningu, en ekki liggur fyrir hvenær hún getur farið fram. Ljósmynd/Fredrik Varfjell

Tvær táningsstúlkur fundust látnar í íbúð í borginni Spydeberg í Noregi í nótt. Þriðja stúlkan var á staðnum en hún var flutt á sjúkrahús vegna gruns um ofneyslu fíkniefna. Þá var maður á þrítugsaldri einnig í íbúðinni og hefur hann verið handtekinn vegna málsins. 

Stúlkurnar voru undir 18 ára aldri. Í tilkynningu til lögreglu var því haldið fram að þær hefðu tekið of stóran skammt fíkniefna, en lögregla hefur sem stendur takmarkaðar upplýsingar um atburðarásina. 

Endurlífgunaraðgerðir sjúkraflutningamanna báru ekki árangur. Óskað hefur verið eftir krufningu, en ekki liggur fyrir hvenær hún getur farið fram. NRK greinir frá. 

Kærður fyrir að koma þeim ekki til bjargar

Maðurinn sem var í íbúðinni liggur undir grun um að hafa ekki komið stúlkunum til bjargar, sem honum bar skylda til í ljósi aðstæðna. Maðurinn á sakaferil að baki þrátt fyrir ungan aldur. 

Hann verður yfirheyrður í dag, í tengslum við rannsókn málsins, með verjanda sér við hlið. Rannsókn lögreglu fer bæði fram sem vettvangsrannsókn og með yfirheyrslum. Þá standa einnig vonir til þess að hægt verði að ræða við þriðju stúlkuna í dag eða á næstu dögum.

Borgarstjórinn í Spydeberg segir atburðinn óheyrilega sorglegan. Aðstandendur stúlknanna hafa verið upplýstir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert