Öryggissveitir lögreglunnar í Brasilíu hafa náð stjórn á áhlaupi á þinghús landsins sem hófst í gærkvöldi.
Þúsundir stuðningsmanna Jairs Bolsonaros, fyrrverandi forseta Brasilíu, réðust að þinghúsinu í höfuðboginni í gær. Múgurinn – sem var klæddur í fánaliti landsins, grænt og gult, og margir báru fána landsins – yfirbugaði lögreglulið á staðnum og tókst að brjóta sér leið inn í þingsali hússins.
Aðrir réðust samtímis á dómsstóla og aðrar opinberar byggingar.
Samkvæmt upplýsingnum frá yfirvöldum í Brasilíu hafa öryggissveitir nú tekið stjórn og hundruð manna sem tóku þátt í árásinni hafa verið handtekin.
Stuðningsmenn Bolsonaros neita að viðurkenna ósigur hans í forsetakjöri sem fram fór í október, þar sem Luiz Inacio Lula da Silva hafði sigur. Hann tók við stjórnartaumunum í landinu fyrir viku.
Bolsonaro, sem sjálfur er staddur í Flórída, sendi út yfirlýsingu í tísti nokkrum klukkutímum eftir að árásin átti sér stað. Þar fordæmdi hann árásina og þvertók fyrir að hafa átt þátt í skipulagningu hennar, líkt og hann hefur verið sakaður um.