Fundu leyniskjöl frá varaforsetatíð Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP/Mandel Ngan

Leynileg skjöl frá þeim tíma þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti var varaforseti Baracks Obama hafa fundist í húsnæði fyrir hugmyndasmiðju í höfuðborginni Washington sem Biden notaði stundum sem skrifstofu.

Lögmenn Bidens fundu skjölin í nóvember þegar þeir voru að hreinsa út úr skrifstofunni og létu þau í hendur bandaríska þjóðskjalasafnsins.

„Hvíta húsið er í samstarfi með bandaríska þjóðskjalasafninu og dómsmálaráðuneytinu,“ sagði ráðgjafi Bidens, Richard Sauber.

Tíu skjöl í læstum skáp

Sauber sagði að „lítið magn skjala merkt sem leynileg“ hafi fundist í Penn Biden Center, sem tengist Pennsylvaníu-háskóla.  Þau hafi verið í læstum skáp. Bætti hann við að skjölin tengdust engri beiðni eða rannsókn.

CBS greindi frá því að Merrick Garland, dómsmálaráherra Bandaríkjanna, hafi beðið saksóknara í borginni Chicago um að fara yfir skjölin, auk þess sem bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar málið. Samkvæmt frétt CBS fundust um tíu skjöl og hafði ekkert þeirra að geyma kjarnorkuleyndarmál.

Í ágúst í fyrra gerðu yfirvöld húsleit í húsi Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Mar-a-Lago eftir að hann brást ekki við endurteknum óskum um aðstoð við að finna skjöl sem voru tekin úr Hvíta húsinu eftir að hann tapaði kosningunum árið 2020.

FBI fann þúsundir skjala frá stjórnvöldum, þar á meðal 100 sem voru merkt leynileg og voru einhver þeirra merkt sem háleynileg. Meðal annars fundust í skjölunum viðkvæmar upplýsingar um Kína og Íran, ásamt kjarnorkuleyndarmálum. Rannsókn stendur yfir á því máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert