Lýsa yfir stuðningi við lýðræðið

Tugir þúsunda manna hafa safnast saman í Brasilíu til stuðnings lýðræði í landinu. Með því er fólkið að bregðast við því þegar stuðningsmenn Jairs Bolsonaros, fyrrverandi forseta Brasilíu, ruddust inn í þinghús landsins.

Í stærstu borg Brasilíu, Sao Paulo, krafðist mannfjöldinn þess að Bolsonaro færi í fangelsi, að því er BBC greindi frá.

1.500 handteknir

Um 1.500 manns hafa verið handteknir vegna uppþotanna í höfuðborginni Brasilíu á sunnudaginn. Þau fóru fram viku eftir að Luiz Inácio Lula da Silva sór embættiseið sem forseti landsins.

Bolsonaro, sem er 67 ára, hefur ekki viðurkennt ósigur sinn í kosningunum, sem Lula vann naumlega, og flaug til Bandaríkjanna áður en Lula tók formlega við völdum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert