Sex ára gamall drengur, sem skaut kennara sinn í Richneck-barnaskólanum í Virginíu í Bandaríkjunum á föstudaginn, notaði skammbyssu móður sinnar, níu millimetra Taurus, löglega keypta, en lögreglan fann skotvopnið í skólastofunni skammt frá skólatösku drengsins og síma hans.
Steve Drew, lögreglustjóri í Newport News, bænum sem skotárásin átti sér stað í, staðfestir við fjölmiðla að samtal við móður drengsins hafi leitt í ljós að vopnið sé í löglegri eigu hennar og hafi verið geymt á heimili þeirra.
Móðir annars nemanda ræddi við fjölmiðla og sagði byssur „stærsta vandamálið í þessu landi“, en eins og mbl.is greindi frá verður Richneck-skólinn lokaður alla þessa viku á meðan nemendur og kennarar jafna sig á áfallinu.
Kennarinn, Abigail „Abby“ Zwerner, er á batavegi á sjúkrahúsi en kúlan fór gegnum handlegg hennar og inn í brjóstkassa. Þrátt fyrir áverkann kom hún öllum bekknum í öruggt skjól áður en hún leitaði sér hjálpar hjá samstarfsfólki sem þegar hringdi í neyðarlínu og fékk lögreglu og sjúkralið á vettvang.
Lögreglan rannsakar nú atvikið en inngangar skólans eru búnir málmleitarhliðum. Verklag við notkun þeirra er hins vegar á þann veg að nemendur eru aðeins látnir fara gegnum hliðin af handahófi og ekki allir sæta þar málmleit en í skólanum eru 550 nemendur.
Drew lögreglustjóri hefur staðfest við fjölmiðla að ekki hafi verið um voðaskot að ræða, ásetningur drengsins hafi staðið til þess að skjóta Zwerner. Hann gengst nú undir geðmat á sjúkrahúsi og verður að sögn lögreglu í haldi nokkra stund eftir atburðinn.