Fleiri en 1.200 manns handteknir

Yfirvöld í Brasilíu hafa handtekið fleiri en 1.200 manns í tengslum við árás á þinghús Brasilíu á dögunum. 

BBC greinir frá því að yfirvöld hafi fimm daga til að ákæra þá sem hafa verið formlega handteknir, en fleiri en 1.500 einstaklingar hafa verið hnepptir í varðhald eftir óeirðirnar. 

Yfirvöld óttast enn frekari óeirðir og eru öryggissveitir með viðveru í höfuðborginni, Brasilíu.

Hvetja til „stórra“ mótmæla 

Samkvæmt minnisblaði saksóknara sem breska ríkissjónvarpið, BBC, hefur undir höndum hafa stuðningsmenn Jairs Bol­son­aros, fyrr­ver­andi for­seta Bras­il­íu, hvatt til „stórra“ mótmæla í stærstu borgum landsins. 

Í skjalinu segir að þeir sem tóku þátt í árás á Hæstarétt, þinghúsið og forsetahöllina muni þurfa að greiða rúmlega 3.830 dollara í sekt, eða um 550 þúsund krónur. Þá þurfa fyrirtæki sem fjármögnuðu og studdu aðgerðina að greiða 19.181 dollara sekt, eða um 2,7 milljónir króna. 

Ríkisstjórnin hefur beðið samfélagsmiðla að loka aðgangi þeirra sem tóku þátt í að skipuleggja árásirnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka