Aðstoðarmenn Joes Bidens Bandaríkjaforseta hafa fundið fleiri leynileg skjöl á öðrum stað en skjölin sem höfðu áður fundist.
Fréttastofan NBC greindi fyrst frá málinu í gærkvöldi. Þar kom fram að „að minnsta kosti einn auka bunki“ af leynilegum skjölum hafi fundist.
Hvíta húsið hefur þegar staðfest að „lítið magn“ leynilegra skjala, sem talin eru hafa verið um tíu, hafi fundist í læstum skáp í húsnæði í Washington sem Biden notaði áður en hann varð forseti. Skjölin ná aftur til þess tíma þegar hann var varaforseti Baracks Obama.
Málið gæti haft áhrif á rannsóknina á miklu magni leynilegra skjala sem fannst í húsi Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, á Flórída eftir að hann yfirgaf Hvíta húsið árið 2021.
Mál Trumps er umfangsmeira, en bandaríska alríkislögreglan, FBI, fjarlægði um 11 þúsund skjöl eftir að hafa fengið húsleitarheimild og gæti Trump átt yfir höfði sér kæru. Þrátt fyrir það er mál Bidens að minnsta kosti vandræðalegt fyrir hann.
Trump hefur sjálfur skrifað á samfélagsmiðil sinn Truth Social um málið. „Hvenær ætlar FBI að ráðast inn á hin mörgu heimili Joes Bidens og jafnvel inn í Hvíta húsið,“ skrifaði hann.