Jól undir loftvarnaflautanið, vegna eldflaugaárása Rússa, og árásardróni sprengdur upp frekar en rakettur um áramót.
Þetta var meðal þess sem Jón Gauti Jóhannesson fréttaritari mbl.is og Morgunblaðsins upplifði í Kænugarði yfir hátíð rétttrúnaðarkirkjunnar á síðustu vikum.
Hann gefur lesendum innsýn inn í þetta líf, nú þegar styttist í að eitt ár sé frá því að innrásin í Úkraínu hófst:
Kænugarður hélt áramót og rétttrúnaðarjól án ljóss, skreytinga og mannmergðar. Rússar skutu eldflaugum á borgina á aðfangadag, gamlársdag og nýjársdag. Á gamlársdag ómuðu loftvarnaflautur á hádegi og sprengjur féllu á orkuinnviði borgarinnar tveim tímum síðar.
Á miðnætti ómuðu loftvarnaflautur á ný og skömmu síðar heyrðust drunur í fjarska. Við fórum út á svalir og sáum geisla leitarljósa leika á himninum yfir miðborg Kænugarðs.
Loftvarnasveitir eru að leita að árásardrónum.
Við komum auga á einn slíkan beint fyrir ofan húsið okkar, leitarljósin lýsa hann upp og eftir nokkrar sekúndur er hann skotinn niður og brakið fellur til jarðar skammt frá okkur. Áramót að hætti Úkraínu 2023.
Rafmagn, hiti og vatn er skammtað í Kænugarði og öðrum borgum Úkraínu eftir harðar árásir Rússa á dreifstöðvar og innviði orkugeirans undanfarnar vikur. Útgöngubann er í gildi frá 11 að kvöldi til 5 að morgni.
Eftir sólsetur er höfuðborg Úkraínu myrkvuð, einungis tunglskin, bílljós og ljós úr gluggum varpa daufri birtu á breiðgötur og stræti. Fáir eru á ferli eftir sólsetur. Á torgi heilagrar Soffíu, miðpunkts jólamarkaðar Kænugarðs árum áður, eru engir básar og engin umferð fólks.
Jólamarkaðurinn var einn sá besti í Evrópu með tugi bása og gnótt hefðbundinna úkraínskra rétta. Nú stendur þar einmanalegt jólatré með þríforki á toppnum, skjaldarmerki Úkraínu, ríkis sem er ósigrað í þessu stríði og sækir fram.
Við gengum nýverið um fámennar götur borgarinnar undir fullu tungli og tókum myndir af því sem bar fyrir augu. Hermaður sem særðist á vígstöðvunum horfir yfir aðaltorg Kænugarðs, Maidan. Fyrir framan hann eru hundruð úkraínskra smáfána til minningar um þá sem hafa fallið.
Kirkjuklukka glymur og munkar halda til bæna í klaustri við dómkirkju heilags Mikaels. Einungis tunglskinið lýsir upp klaustrið og kirkjuna. Skuggar munkana leika á veggjum klaustursins.
Á torginu fyrir framan kirkjuna hefur minnismerki tileinkað prinsessunni Olgu verið hlaðið sandpokum til að verja hana hugsanlegum sprengjuárásum. Á borða sem strengdur er yfir sandpokana stendur: „Heimur! Hjálpið okkur!“ Öll minnimerki í borginni eru hlaðin sandpokum, en þannig vernda Úkraínumenn sögu sína og arfleið.
Í almenningsgarði að baki dómkirkjunnar lýsir farsími upp andlit pilts, sem er að tala við kærustu sína í Póllandi. Úr almenningsgarðinum er útsýni yfir vinstri bakka Kænugarðs, sem næstum ósýnilegur vegna myrkurs.
Það sigla engir fljótabátar á ánni Dnépr lengur, en fyrir stríð voru þeir margir, fljótandi skemmtistaðir. Par helst í hendur og gengur eftir mannfárri götu í hinu sögufræga Podíl-hverfi, sem fyrir stríð iðaði af mannlífi. Stríðið hefur breytt hinni fornu borg á sjö hæðum við árbakka Dnépr í draugaborg eftir sólsetur.
Loftvarnaflautur ýlfra allt í einu og gera andann í hinni myrkvuðu borg uggvekjandi. Við leitum skjóls í yfirbyggðu húsasundi og bíðum átekta. Rússar geta verið að skjóta eldlfaugum úr sprengjuflugvélum og herskipum svartahafsflotans.
Eftir um 20 mínútur sjást leiftur við útjaðar borgarinnar og síðan heyrast sprengingar. Rússar eru að skjóta á innviði borgarinnar í miskunnarlausri tilraun til að brjóta á bak aftur baráttuþrek borgarbúa. Það er ekkert sem bendir til þess að þeim takist ætlunarverk sitt, hvorki hér né í öðrum borgum Úkraínu.
Íbúar borgarinnar hafa birgt sig upp af vatni, prímusum, vasaljósum, rafhlöðum og matvælum sem skemmast ekki. Drunur díselknúinna rafala heyrast víða. Rafalarnir halda verslunum og veitingahúsum gangandi þegar rafmagni slær út. Ómur þeirra er eitt af táknum borgar undir sprengjuárásum.
Það gera allir sér grein fyrir því að þetta verður erfiður vetur með tíðu rafmagnsleysi, vatnsleysi, hitaleysi og símasambandsleysi, vetur sem borgarbúar hafa ekki þekkt síðan í síðari heimstyrjöldinni. Það verður ófremdarástand ef hitaleysi verður langvinnt, því hitastig getur fallið niður í -20 gráður yfir vetrartímann.
Maður með hund birtist í húsasundinu og kastar á okkur kveðju. Við tökum hann tali. Hann heitir Mykola og segist siðferðilega vel búinn undir veturinn.
„Þær þjáningar sem við munum ganga í gegnum er lítið samanborið við herinn á vígstöðvunum. Meðan herinn berst og sækir fram getum við tekist á við hvað sem er. Sigurinn verður okkar. Slava Úkraíní!“.
Við höldum heim á leið eftir dimmum götum borgarinnar. Útgöngubann er að skella á. Við sýnum skilríki okkar á eftirlitsstöð skammt frá heimili okkar. „Það eru tvær mínútur í útgöngubann“, segir hermaður við okkur.
„Þið eigið að vera komin í háttinn á þessum tíma“, segir hann brosandi og veifar okkur í gegn. Þegar við komum heim er rafmagn og hiti farinn af íbúðinni, en við höfum rennandi vatn og gas. Við klæðum okkur í yfirhafnir, kveikjum á kerti og veltum fyrir okkur hvað morgundagurinn mun bera í skauti sér.