Rússar íhuga eignaupptöku föðurlandssvikara

Volodín benti jafnframt á að slíka háttsemi mætti heimfæra sem …
Volodín benti jafnframt á að slíka háttsemi mætti heimfæra sem þátttöku við að endurreisa nasisma og vanvirða herinn, samkvæmt rússneskum lagabókstaf. AFP/Tass

Rússnesk yfirvöld íhuga nú alvarlega að gera fasteignir í eigu „föðurlandssvikara“ upptækar. Þingmaður í neðri deild rússneska þingsins hefur lagt þetta til.

Samkvæmt rússneskum lögum er nú löng fangelsisvist lögð við því að gagnrýna innrás Rússlands í Úkraínu. Vjatséslav Volodín, rússneskur þingmaður, telur greinilegt að þessi viðurlög séu ekki nóg til þess að kveða niður gagnrýnisraddirnar.

Skúrkar sem fjármagni lífið með leigutekjum

„Sumir samlanda okkar telja að þeir geti leyft sér að móðga Rússland, íbúa Rússlands, hermennina okkar og embættismenn, og að það sé í lagi að lýsa opinberlega yfir stuðningi við illmenni, nasista og morðingja,“ var haft eftir honum í skeyti sem rússneskir borgarar fengu í gegnum samfélagsmiðilinn Telegram.

Volodín benti jafnframt á að slíka háttsemi mætti heimfæra sem þátttöku við að endurreisa nasisma og vanvirða herinn, samkvæmt rússneskum lagabókstaf.

Hann kallaði gagnrýnendur skúrka, sem njóti lífsins á kostnað íbúa Rússlands, þar sem þeir fjármagni lífsstíl sinn utan landsteinanna með leigutekjum af fasteignum sínum í Rússlandi. Þeir telji lögin ekki eiga við um sig og að réttlætið geti ekki náð í skottið á sér.

Vilja skilgreina hugtakið „svikari“ fyrst

Undir kringumstæðum sem þessum heldur Volodín því fram að hið rétta væri að innleiða sérrefsilög sem heimili yfirvöldum að gera fasteignir svikara upptækar. Enda yrði að refsa fyrir hvers kyns svik.

Kirill Kabanov, fulltrúi í réttlætisráði Rússlands, lagði áherslu á að áður en slík lög yrðu sett, þyrfti að skilgreina hugtakið „svikari“ með fullnægjandi hætti.

Réttindaráðið mun funda um það á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert