Aðstoðarmenn Joe Biden Bandaríkjaforseta hafa fundið fimm leynileg skjöl til viðbótar því sem upprunalega fannst á fimmtudag á heimili forsetans í Wilmington-borg í Delaware-ríki á austurströnd Bandaríkjanna. Sex leynileg skjöl hafa því fundist þar í þessari viku, að því er New York Times greinir frá.
Skjölin fimm fundust rétt eftir fund fimmtudagsins að því er New York Times hefur eftir ónefndum heimildarmanni. Fundust skjölin á geymslusvæði nærri bílskúr við heimili forsetans.
Hvíta húsið hefur þegar staðfest að leynileg skjöl hafi fundist í læstum skáp í húsnæði í Washington sem Biden notaði áður en hann varð forseti. Skjölin ná aftur til þess tíma þegar hann var varaforseti Baracks Obama.