Að minnsta kosti 67 hafa fundist látnir eftir að flugvél með 72 manneskjur um borð brotlenti í Nepal.
Lögreglustjórinn AK Chhetri sagði við AFP-fréttastofuna að búið væri að flytja 31 lík á sjúkrahús. Bætti hann við að 36 lík til viðbótar væru í gljúfrinu þar sem flugvélin hrapaði til jarðar.
„Flugvélin brotlenti í gljúfur og þess vegna er erfitt að ná í líkin. Leitarstarf er í fullum gangi. Enginn hefur enn fundist á lífi,“ sagði talsmaður hersins, Krishna Prasad Bhandari.
Einn embættismaður á staðnum sagði að einhverjir hafi fundist á lífi og að þeir hafi verið fluttir á sjúkrahús en þetta hefur ekki fengist staðfest, hvorki hjá flugfélaginu Yeti Airlines né öðrum.
Á meðal þeirra 68 farþega og fjögurra úr áhöfninni um borð voru 15 útlendingar, þar á meðal fimm Indverjar, fjórir Rússar og tveir Kóreumenn. Hinir voru frá Nepal.