Tveir menn á fertugs- og fimmtugsaldri liggja alvarlega skaðaðir á sjúkrahúsi í Ósló í Noregi eftir skotárás við Þjóðleikhúsið í nótt. Í morgun var þó upplýst að þeir væru ekki í lífshættu.
Barst lögreglu tilkynning um skothvelli klukkan 00:30 í nótt, 23:30 í gærkvöldi að íslenskum tíma, og voru vopnaðir lögreglumenn komnir á vettvang innan tíðar. Hittust mennirnir tveir þar fyrir og báru augljósa áverka eftir byssukúlur auk þess sem lögregla fann tóm skothylki í grennd.
„Ég get staðfest að tóm skothylki fundust,“ segir Alexander Østerhaug, sem stjórnaði aðgerðum lögreglunnar á vettvangi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.
Á ellefta tímanum í morgun greindi NTB-fréttastofan svo frá því að maður á þrítugsaldri hefði verið handtekinn og sæti í haldi lögreglu grunaður um tilraun til manndráps. „Við rannsökum þennan atburð sem tilraun til manndráps,“ segir Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, við NTB.
Reiknar Metlid með fleiri handtökum er fram líður en vill þó ekki tjá sig um hve marga lögreglan telji hafa átt hlut að máli. Þremenningarnir sem nú þegar hafa komið við sögu eru allir góðkunningjar lögreglunnar úr fyrri málum og telur Metlid árásina í nótt snúast um einhvers konar uppgjör, nýtt eða gamalt.
Kveður Magnus Strande varðstjóri deilur hlutaðeigandi hafa hafist á skemmtistað við Klingenberggate en svo borist að Þjóðleikhúsinu þar sem skotvopninu hafi verið beitt.
Lögregla hefur rætt við vitni í nótt og í dag en viðmælandi norska dagblaðsins VG segist hafa heyrt fjóra skothvelli og séð mann liggja á götunni. Sá hafi notið fyrstu hjálpar frá öðrum vegfarendum þar til lögregla og sjúkralið komu á vettvang.