Tveir breskir karlmenn á þrítugsaldri voru gripnir af fíkniefnahundi á Stansted-flugvelli í London á leið sinni til Reykjavíkur þar sem þeir hugðust selja kókaín á þrefalt hærra verði en í Bretlandi.
Bradley Pryer, 24 ára eiturlyfjasali, og hinn 23 ára Cain Adams, voru handteknir í apríl á síðasta ári með kókaín innvortis að verðmæti 6.300 punda. Jafngildir það rúmlega einni milljón íslenskra króna, en það hefði verið þrefalt verðmætara hér á landi, að því er fréttamiðillinn Wales Online greinir frá.
Skilaboð frá Pryer bentu til þess að ætlunin væri að flytja svipað magn af kókaíni í hverri viku til Íslands með þessari aðferð.
Pryer hafði áður útvegað heróín, ketamín, MDMA, amfetamín, kannabis og ýmis lyfseðilsskyld lyf til svæða í Essex, London og Portsmouth. Heildarverðmæti lyfjanna nam um 2,7 milljónum punda.
Pryer var á föstudag dæmdur í tólf ára fangelsi og Adams í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi. Báðir höfðu þeir játað sök í október í fyrra.
Eftir uppkvaðningu dómsins sagði Andrew Tickner, yfirmaður OCP, samstarfsverkefnis um skipulagða glæpastarfsemi í Bretlandi, að þeir hefðu verið tilbúnir að hætta lífi sínu með því að reyna að smygla kókaíni frá Bretlandi í von um meiri hagnað á Íslandi.