Viðbragðsaðilar í Nepal héldu í morgun áfram leit sinni í braki flugvélar sem hrapaði með 72 manneskjur um borð í gærmorgun. Ekki er búist við því að neinn finnist á lífi úr því sem komið er, en 68 lík hafa fundist. Búið er að finna flugrita vélarinnar.
Flugvél Yeti Airlines, ATR, hrapaði ofan í gljúfur og við það kviknaði í henni er hún nálgaðist borgina Pokhara. Þetta er mannskæðasta flugslys Nepals frá árinu 1992, eða í um 30 ár.
Í myndskeiðum á samfélagsmiðlum sést þegar vélin flýgur yfir íbúðabyggð og snýst skyndilega á hliðina.
Hermenn notuðu reipi og sjúkrabörur til að ná líkum úr gljúfrinu, sem er 300 metra djúpt, langt fram á nótt.
„Við höfum fundið 68 lík til þessa. Við erum að leita að fjórum líkum til viðbótar. Við viljum halda áfram þangað til við náum í líkin,“ sagði embættismaðurinn Tek Bahadur KC.
„Við vonumst eftir kraftaverki en því miður eru engar líkur á því að finna nokkurn á lífi,“ bætti hann við.
Flugöryggi hefur ekki þótt nægilega mikið í Nepal í gegnum tíðina, en í dag er þjóðarsorg í landinu vegna slyssins.