Byssumenn skutu til bana fyrrverandi þingkonu og einn af lífvörðum hennar í Kabúl, höfuðborg Afganistans, aðfaranótt sunnudags.
Mursal Nabizada, sem var 32 ára, var þingkona þangað til talíbanar tóku völdin í landinu í ágúst árið 2021.
Að sögn talsmanns lögreglunnar var hún skotin til bana heima hjá sér. Bróðir þingkonunnar særðist einnig í árásinni.
Nabizada var „óttalaus baráttukona fyrir Afganistan“, sagði þingkonan fyrrverandi Mariam Solimankhil á Twitter.
„Hún var sterk kona sem stóð fast á sínu jafnvel þegar hún stóð frammi fyrir hættu,“ bætti hún við.
„Þrátt fyrir að vera boðið að yfirgefa Afganistan ákvað hún að halda kyrru fyrir og berjast fyrir fólkið sitt.“