25 er enn saknað eftir loftárás Rússa á níu hæða blokk í úkraínsku borginni Dnípró í austurhluta landsins á laugardaginn. Að minnsta kosti 41 lét lífið í árásinni.
Árásin er ein sú mannskæðasta á Úkraínu frá upphafi innrásar Rússa í febrúar á síðasta ári. Rússnesk yfirvöld neita ábyrgð.
Kiríló Tímósjenkó, starfsmaður úkraínska forsetaembættisins, sagði að lík barns hefði fundist undir braki á fjórðu hæð hússins.
Björgunarsveitir hafa fjarlægt meira en níu þúsund tonn af braki frá því að árásin var gerð á laugardag.