„Engin slys á tímum stríðsátaka“

Selenskí ávarpar fundinn fyrr í dag.
Selenskí ávarpar fundinn fyrr í dag. AFP/Fabrice Coffrini

Harmleikurinn sem átti sér stað í Brovarí í Úkraínu í dag, þegar að úkraínsk þyrla hrapaði til jarðar, er afleiðing stríðsátaka, að sögn Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu. 

Þetta kom fram í máli hans er hann ávarpaði árlegan fund Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss fyrr í dag. BBC greinir frá.

Fjórtán létust í slysinu og 22 voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahús, þar af 10 börn. Þyrlan var á leiðinni í átt að svæðum í austurhluta landsins þar sem átök geisa milli úkraínskra og rússneskra hersveita.

Engar vísbendingar um að Rússar beri ábyrgð

Enn hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að Rússar hafi átt þátt í atvikinu og er það álitið vera slys.

Úkraínsku öryggissveitirnar útiloka þó ekki þann möguleika að einhver hafi átt við búnað þyrlunnar sem leiddi til þess að hún hrapaði. Þá er einnig talið að tæknilegir örðugleikar eða brot á flugreglum gætu hafa ollið slysinu en það er nú til rannsóknar.

Þegar Selenskí ávarpaði Alþjóðaefnahagsráðið fyrr í dag sagði hann að það væru „engin slys á tímum stríðsátaka.“

Brotlenti við leikskóla

Þyrlan brotlenti við hlið leikskóla og íbúðarhúss í Brovarí um klukkan hálfátta í morgun að staðartíma. 

Fjórtán fórust í slysinu, þar á meðal barn og háttsettir úkraínskir embættismenn sem voru um borð í þyrlunni. Den­is Món­ast­irskí innanríkisráðherra var einn þeirra.

„Til­gang­ur­inn með þyrluflug­inu var að sinna starfi á einu af heitu svæðunum í land­inu þar sem bar­dag­ar eru í full­um gangi. Inn­an­rík­is­ráðherr­ann var á leiðinni þangað,“ sagði aðstoðar­yf­irmaður úkraínsku for­seta­skrif­stof­unn­ar, Kiríló Tímósj­en­kó, í sjón­varps­viðtali fyrr í dag.

Þýsk stjórn­völd hafa boðið fram aðstoð við rann­sókn á slys­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka