Innanríkisráðherra Úkraínu og 15 aðrir fórust

Denis Mónastirskí í júní síðastliðnum.
Denis Mónastirskí í júní síðastliðnum. AFP/Sergei Súpinskí

Þyrla hrapaði til jarðar skammt frá leikskóla í útjaðri Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu. Einhverjir fórust í slysinu, að sögn embættismanns.  

„Í borginni Brovarí hrapaði þyrla skammt frá leikskóla og íbúðabyggingu,“ sagði Oleksí Kúleba, yfirmaður héraðsstjórnar í Kænugarði, á Telegram.

Hann bætti við að „börn og starfsmenn voru í leikskólanum.....fórnarlömb hafa verið staðfest.“

Uppfært kl. 8.18:

16 fórust í slysinu, þar á meðal tvö börn, að sögn lögreglunnar.

Lögreglan bætti við að þó nokkrir háttsettir embættismenn hefðu farist í slysinu, þar á meðal innanríkisráðherrann Denis Mónastirskí.

Hermenn og almennir borgarar skoða slysstaðinn í morgun.
Hermenn og almennir borgarar skoða slysstaðinn í morgun. AFP/Sergei Súpinskí

Mónastirskí, 42 ára tveggja barna faðir, var skipaður innanríkisráðherra árið 2021.

22 voru fluttir á sjúkrahús vegna slyssins, þar á meðal tíu börn.

Hersveitir Rússlands og Úkraínu börðust um yfirráðin yfir Brovarí fljótlega eftir innrás Rússa, eða þangað til Rússar drógu sig þaðan í burtu í apríl í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka