Þyrlan sem hrapaði í morgun með innanríkisráðherra Úkraínu um borð var á leiðinni í átt að svæðum í austurhluta landsins þar sem úkraínskar hersveitir eiga í harðri baráttu við Rússa.
„Tilgangurinn með þyrlufluginu var að sinna starfi á einu af heitu svæðunum í landinu þar sem bardagar eru í fullum gangi. Innanríkisráðherrann var á leiðinni þangað,“ sagði aðstoðaryfirmaður úkraínsku forsetaskrifstofunnar, Kiríló Tímósjenkó, í sjónvarpsviðtali.
Forsætisráðherra Úkraínu, Denís Sjmigal, segir að dauði Denís Mónastirkí, innanríkisráðherra landsins, og tveggja annarra háttsettra embættismanna í slysinu sé „mikill missir“ fyrir Úkraínu.
„Mikill missir fyrir ríkisstjórnina og allt landið. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldna allra fórnarlambanna. Ég bað [embættismenn] um að stofna þegar í stað starfshóp til að rannsaka allar kringumstæður í tengslum við slysið,“ sagði Sjmigal á Telegram.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði slysið sömuleiðis vera „hræðilegan harmleik“.
„Í dag varð hræðilegur harmleikur í Brovarí. Björgunarþyrla brotlenti og eldur braust út á slysstaðnum. Sársaukinn er ólýsanlegur,“ sagði Selenskí.