„Ég sé ekki vandamálið“

Mette Frederiksen forsætisráðherra strýkur dönskum biskupum andhæris og hafa þeir …
Mette Frederiksen forsætisráðherra strýkur dönskum biskupum andhæris og hafa þeir sent kirkjumálaráðherra formlega kvörtun yfir því ætlunarverki ríkisstjórnarinnar að leggja kóngsbænadag niður til að auka framlög til varnarmála. AFP/Jonathan Nackstrand

Stéttarfélög, biskupar og dönsk þjóð eru með böggum hildar yfir því ætlunarverki nýrrar ríkisstjórnar Danmerkur að leggja niður kóngsbænadag, eða Store bededag, sem verið hefur almennur frídagur í landinu allar götur síðan 1686 og er fjórði föstudagur eftir páska.

Dagurinn var ætlaður til föstu og bænahalds. Samkvæmt hefðinni hringdu kirkjuklukkur að kvöldi dagsins áður til merkis um að almenningur skyldi leggja niður störf. Eins var öll sala á öldurhúsum bönnuð þar sem ætlast var til að almúginn rækti tíðir daginn eftir og kæmi úthvíldur og allsgáður til kirkju.

Kóngsbænadegi fylgir einnig sú hefð að borða heitar hveitibollur eða „varme hveder“ eins og það heitir frá fornu fari. Þar sem bakaríin voru lokuð seldu bakarar hveitibollur daginn áður sem fólk gat sjálft hitað upp á heimilum sínum og lagt sér til munns.

Líklega eimir ekki mikið eftir af hveitibolluhefðinni nú eða lokuðum öldurhúsum daginn áður, en eftir stendur að þarna er frídagur sem ríkisstjórnin ætlar nú að slá striki yfir. Ætlunin er að kóngsbænadagur verði á ný almennur vinnudagur. Við þetta aukist skatttekjur ríkissjóðs um 3,2 milljarða danskra króna, jafnvirði tæplega 66,5 milljarða íslenskra, og þeir fjármunir skulu samkvæmt ríkisstjórn landsins ganga í sjóð varnarmála.

Biskupar í vígahug

Að baki þessari áætlun standa varnarmálaráðherrann Jakob Ellemann-Jensen, Mette Frederiksen forsætisráðherra og Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra og hafa biskupar Danmerkur, ellefu talsins, afhent kirkjumálaráðherra skriflegt mótmælaskjal sem mun fáheyrt þegar sú stétt á í hlut.

Telja biskupar ætlunarverk ríkisstjórnarinnar freklegt inngrip í hefðir þjóðkirkjunnar. „Biskuparnir telja helgidaginn mikilvægan hvort tveggja fyrir boðun kristninnar og samheldnina í samfélaginu. Biskupunum þykir því miður að ríkisstjórnin hyggist leggja helgidaginn af,“ segir í bréfi þeirra.

Benda biskupar að auki á ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna og segjast von að ríkisstjórnin virði að helgidagar þjóðkirkjunnar séu frídagar. „Þá vekur það samhengi að leggja niður helgidag og auka framlög til varnarmála vissa furðu,“ skrifa þeir enn fremur.

Stjórn á villigötum

Erindi stéttarfélaga streyma einnig til stjórnarinnar, allt frá félögum lækna til iðnaðarmanna, þar sem hvatt er til þess að hætta annaðhvort við áform þessi eða blása í það minnsta til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ekki síst brýnir Lizette Risgaard, formaður launþegasamtakanna Fagbevægelsens Hovedorganisation, raust sína.

„Þetta eru augljós afskipti af dönsku atvinnulífi og samningum sem náðst hafa með áralangri vinnu. Stjórnin er á villigötum,“ segir formaðurinn við danska ríkisútvarpið DR. „Nú er það kóngsbænadagur, hvað verður það næst, skírdagur eða sunnudagar?“ spyr Risgaard.

Eins hefur örstuttur fresturinn sem stjórnin gefur til álitsgjafar um málið vakið úlfúð. Sá frestur er almennt fjórar vikur en nú hafa þeir, sem vilja láta í ljós álit sitt á tillögunni, eina viku til að koma máli sínu á framfæri.

Kjarasamningar eru yfirvofandi á dönskum vinnumarkaði og segjast nú álitsgjafar, sem danskir fjölmiðlar leita til, óttast að verkföll séu í sjónmáli, brotthvarf kóngsbænadags verði ekkert annað en olía á þann vansældareld sem þegar logi vegna brattra verðhækkana nauðsynjavöru sem þyngir Dönum ekki síður en öðrum Evrópuþjóðum um þessar mundir.

Stéttarfélög undirbúa nú hávær mótmæli og hafa auk þess blásið til undirskriftasöfnunar sem á fyrstu klukkustundinni náði 100.000 undirskriftum.

Frederiksen forsætisráðherra varði tillögu ráðherranna í þinginu í gær. „Ég sé ekki vandamálið við að vinna einum degi meira. Tillagan verður lögð fram og hún verður samþykkt,“ sagði ráðherra.

DR

Avisen Danmark

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert