Komið er að ögurstundu á stjórnmálaferli Emmanuels Macrons, forseta Frakklands, þar sem reynir á tillögur hans að endurskipulagningu eftirlaunakerfis landsins. Fjöldamótmæli hafa verið skipulögð af verkalýðsfélögum gegn fyrirhuguðum breytingum.
Frumvarpið tekur meðal annars til hækkunar eftirlaunaaldurs úr 62 árum í 64 ár.
Samgöngur hafa verið settar úr skorðum víða um land og skólum lokað í mótmælaskyni. Á Orly-flugvellinum í París hefur fimmta hverju flugi verið aflýst.
Neðanjarðarlestakerfi Parísar er í lamasessi þar sem aðeins tvær línur eru í fullri virkni.
Fjölmenn mótmæli á götum úti, þar búist er við tugum þúsunda, hafa verið skipulögð í París sem og öðrum borgum. Lögreglulið skipuleggur nú vaktir þar sem allt eins er búist við að gripið verði til ofbeldis.
Í frumvarpinu eldfima og umdeilda, sem kynnt var í síðustu viku, er gert ráð fyrir að frá og með árinu 2027 þurfi fólk að vinna í 43 ár til þess að eiga rétt á fullum eftirlaunum. Í dag er viðmiðið 42 ár.