Fordæma „viðbjóðslega árás“

Mótmælandi á vegum Lýðræðislegrar samstöðumiðstöðvar Kúrda hoppar á mynd af …
Mótmælandi á vegum Lýðræðislegrar samstöðumiðstöðvar Kúrda hoppar á mynd af Erdogan Tyrklandsforseta í mótmælum Kúrda í dag sem beindust gegn tyrkneska forsetanum og NATO-umsókn Svía. AFP/Christina Olsson

Blásið var til mótmæla á nokkrum stöðum í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í dag, að fengnu samþykki lögreglu. Var þar ýmist um að ræða mótmæli gegn tyrkneskum stjórnvöldum eða gegn aðildarumsókn Svía að Atlantshafsbandalaginu NATO eftir því hvar mótmælendur voru í sveit settir með skoðanir sínar. Jafnvel gegn hvoru tveggja.

Dansk-sænski hægriöfgamaðurinn Rasmus Paludan stóð fyrir mótmælasamkomu eins nálægt tyrkneska sendiráðinu og leyfi fékkst til og mótmælti þar múslimum og innflytjendum. „Ef þið eruð ekki fylgjandi tjáningarfrelsi skuluð þið búa einhvers staðar annars staðar,“ sagði Paludan í lok langrar ræðu og kveikti svo í Kóraninum.

Í Istanbúl í Tyrklandi var mótmælt af hörku við ræðismannsskrifstofu …
Í Istanbúl í Tyrklandi var mótmælt af hörku við ræðismannsskrifstofu Svíþjóðar eftir að Kóranbrenna Paludans í Stokkhólmi kvisaðist þar út. AFP/Yasin Akgul

Þá kom hópur á vegum samtaka lýðræðissinnaðra Tyrkja í Evrópu, UETD, saman í nágrenni sendiráðsins til að sýna Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta stuðning sinn, en við Norra Bantorget mótmæltu fulltrúar Lýðræðislegrar samstöðumiðstöðvar Kúrda hvoru tveggja, Erdogan og NATO-umsókn Svíþjóðar.

Steininn tók úr þegar Paludan brenndi Kóraninn og brugðust tyrknesk stjórnvöld þegar ókvæða við. Þar sem sænsk lögregla hafði lagt blessun sína yfir mótmælin er eftir því var leitað sendi tyrkneska utanríkisráðuneytið þegar út þá tilkynningu að ekkert yrði af fyrirhugaðri heimsókn sænska varnarmálaráðherrans Pål Jonson til Tyrklands til að ræða NATO-umsókn Svía og þau skilyrði sem tyrknesk stjórnvöld vildu binda hana – meðal annars framsali hóps Kúrda sem þau álitu hryðjuverkamenn.

Tyrkneskir mótmælendur í Istanbúl brenna sænska fánann við sænsku ræðismannsskrifstofuna …
Tyrkneskir mótmælendur í Istanbúl brenna sænska fánann við sænsku ræðismannsskrifstofuna þar í borginni í dag. AFP/Yasin Akgul

„Við fordæmum af öllum mætti þessa viðbjóðslegu árás á helga bók okkar [...] Að leyfa þessa and-íslömsku háttsemi, sem beint er gegn múslimum og heilögum gildum okkar, undir merkjum tjáningarfrelsis er fullkomlega óviðunandi,“ sagði Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, í yfirlýsingu eftir brennu Paludans.

Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, reyndi að bera klæði á vopnin á Twitter þar sem hann skrifaði að and-íslamskar ögranir væru hrollvekjandi. „Svíþjóð gengur langt í að viðurkenna tjáningarfrelsið en það táknar ekki að sænska ríkisstjórnin, eða ég sjálfur, styðji þær skoðanir sem hér eru settar fram.“

Mótmælendur á vegum Lýðræðislegrar samstöðumiðstöðvar Kúrda og samtaka ungra vinstrimanna …
Mótmælendur á vegum Lýðræðislegrar samstöðumiðstöðvar Kúrda og samtaka ungra vinstrimanna í Uppsala mótmæltu NATO-umsókn á Norra Bantorget auk þess sem Kúrdarnir mótmæltu tyrkneska forsetanum og báðu hann aldrei þrífast. AFP/Christine Olsson

Þrátt fyrir þetta fóru öll mótmæli í Stokkhólmi í dag friðsamlega fram, að sögn lögreglu, á meðan borgin brennur í ófriðarbáli skotárása og sprenginga þessi dægrin.

Aftonbladet

SVT

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert