„Rússar eru að nálgast 180.000 fallna og særða hermenn,“ segir Eirik Kristoffersen, æðsti yfirmaður norska hersins, í viðtali við TV2 í dag og nefnir heildartölu yfir 300.000 manns sem fallið hafi og særst í Úkraínustríðinu að óbreyttum borgurum meðtöldum.
Er tala Kristoffersens hvað Rússland varðar öllu hærri en sú sem Rússar sjálfir gefa upp en samkvæmt The Moscow Times er mannfall Rússlands megin, það er að segja fallnir hermenn án þess að særðir séu taldir þar með, 11.662.
„Tölurnar hjá Úkraínu eru líklega rúmlega 100.000 fallnir og særðir hermenn en þar að auki hafa um það bil 30.000 almennir borgarar látið lífið í þessu skelfilega stríði sem er hér ekki svo langt frá okkur,“ segir Kristoffersen enn fremur.
Hann segir Rússland neyta allra ráða í stríðinu, stór hluti alls herstyrks Rússa sé staddur í Úkraínu og þar hafi mikið farið forgörðum. „Þeir hafa misst fjölda skriðdreka, önnur brynvarin tæki og mannskap,“ heldur norski herstjórnandinn áfram.
Þetta tákni þó ekki að rússneski herinn sé kominn að fótum fram. „Þeir geta haldið áfram mjög lengi,“ segir hann, Rússar séu í stakk búnir til að framleiða meira af hergögnum, sækja þau til birgðastöðva sinna og senda fleiri hermenn á vígstöðvarnar.
Kristoffersen var viðstaddur fund æðstu yfirmanna varnarmála rúmlega 50 þjóða í Ramstein í Þýskalandi á föstudaginn. Hann kveður Úkraínumenn í örvæntingarfullri þörf fyrir auknar loftvarnir. Þau loftvarnakerfi sem þeir hafi þegar fengið frá vesturveldunum hafi dregið mjög úr tjóni af völdum árása Rússa úr lofti.
„Aðaláhyggjuefnið er hvort Úkraínumönnum takist að halda rússneska flughernum í fjarlægð. Við höfum ekki séð neinar stórvægilegar árásir flughersins, þökk sé þeim loftvörnum sem Úkraínumenn hafa á að skipa.“
Betur megi þó ef duga skuli og Úkraínumenn þurfi öfluga skriðdreka og það fljótt. Eins og mbl.is greindi frá í gær eru Þjóðverjar hikandi við að afhenda Leopard 2-dreka sína og aðrar þjóðir, sem keypt hafa slíka skriðdreka af Þjóðverjum, mega ekki láta þá frá sér án samþykkis Þjóðverja.