Sakfelldir fyrir árásina á þinghúsið

Richard Barnett á leið í dómsal.
Richard Barnett á leið í dómsal. AFP/Win McNamee/Getty

Fjórir menn úr öfgasamtökunum Oath Keepers voru fundnir sekir í gær vegna aðildar sinnar að árásinni á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021.

Dómari dæmdi þá Roberto Minuta, Joseph Hackett, David Moerschel og Edward Vallejo fyrir samsæri gegn bandarískum stjórnvöldum þegar þeir reyndu að koma í veg fyrir kosningu þingsins vegna sigurs Joes Bidens yfir Donald Trump í forsetakosningum í nóvember 2020.

Richard Barnett einnig sakfelldur

Annar dómstóll í Washington sakfelldi Richard Barnett, manninn sem var myndaður með fæturna uppi á skrifborði Nansy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, fyrir aðild sína að árásinni.

Richard Barnett á skrifstofu Nancy Pelosi.
Richard Barnett á skrifstofu Nancy Pelosi. AFP/Saul Loeb

Alls hafa um 530 manns verið fundnir sekir eða lýst yfir sekt sinni vegna árásarinnar, sem saksóknarar segja að hafi verið ætlað að halda Trump í embætti forseta þrátt fyrir tap hans í kosningunum.

Yfir 950 manns voru handteknir fyrir þátttöku sína, flestir fyrir minniháttar brot, m.a. fyrir að ráðast inn í þinghúsið og fyrir eignaspjöll.

En yfir 280 hafa verið kærðir fyrir að ráðast á lögreglumenn og 50 fyrir alvarlega glæpi um samsæri.

Eiga yfir höfði sér 20 ára fangelsi

Tveir mánuðir eru liðnir síðan tveir menn úr Oath Keepers voru sakfelldir fyrir samsæri vegna árásarinnar. Þar er mjög sjaldgæft að saksóknarar leggi fram slíka ákæru en verði menn fundnir sekir fyrir hana eiga þeir yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi.

Rannsókn stendur yfir á því hvort Donald Trump hafi staðið á bak við árásina á þinghúsið eða hvatt til hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka