Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, segir Vesturlöndin þurfa að gæta sín þegar kemur að stuðningi við Úkraínu. Þessi orð lét hann falla í kjölfar þess að Þjóðverjar tilkynntu í dag að þeir myndu senda skriðdreka af tegundinni Leopard 2 til Úkraínu, eftir margra vikna þrýsting.
„Við verðum ávallt að gæta þess í öllu sem við gerum að við séum að gera það sem er nauðsynlegt og raunhæft til að styðja við Úkraínu, en á sama tíma að við séum að sjá til þess að átökin þróist ekki út í að verða stríð milli Rússlands og Atlantshafsbandalagsins,“ sagði Scholz er hann ávarpaði þingið í dag.
Þýsk stjórnvöld ætla að útvega úkraínsku þjóðinni 14 Leopard 2 A6-skriðdreka, auk þess sem þau hafa veitt öðrum Evrópuþjóðum heimild til að senda slíka skriðdreka úr eigin birgðageymslum til Úkraínu.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, tók ákvörðun Þjóðverja fagnandi. „Á svona mikilvægu augnabliki í stríðinu við Rússa þá getur þetta hjálpað Úkraínu að verjast, vinna og halda áfram sem fullvalda ríki,“ skrifaði Stoltenberg á Twitter.