Fimm lögreglumenn ákærðir fyrir morð

Tadarrius Bean, Demetrius Haley, Emmitt Martin III, Desmond Mills og …
Tadarrius Bean, Demetrius Haley, Emmitt Martin III, Desmond Mills og Justin Smith. Ljósmynd/Lögreglan í Memphis

Fimm lögreglumenn í Memphis-borg í Bandaríkjunum hafa verið ákærðir fyrir morðið á Tyre Nichols. Málið hefur vakið mikla athygli vestanhafs. 

Nichols var stoppaður af lögreglu 7. janúar fyrir glannalegan akstur. Í skýrslu lögreglu segir að „rifrildi“ hafi brotist út og Nichols hlaupið í burtu. Lögreglumennirnir eltu hann og aftur brutust út „rifrildi“ á milli aðila málsins.

Lögregla handtók þá Nichols sem kvartaði yfir því að geta ekki andað. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést þremur dögum síðar. Nichols var 29 ára gamall sendill og átti fjögurra ára son. 

Lést eftir barsmíðar

CNN greinir frá því að bráðabirgðaniðurstöður krufningar, sem lögmenn fjölskyldu hans létu framkvæma, gefa til kynna að Nichols hafi látist vegna „mikilla blæðinga eftir alvarlegar barsmíðar“ sem hann hlaut. 

Myndskeið náðist af atburðinum sem fjölskylda Nichols og lögmenn hafa séð og segja það vera í samræmi við bráðabirgðaniðurstöðurnar. 

Hljóðbrot úr myndskeiðinu hefur verið birt opinberlega en ekki myndbandið sjálft. 

Gat ekki varið sig

Lögmennirnir, Ben Crump og Antonio Romanucci, hafa lýst því sem sést á myndskeiðinu sem skelfilegu ofbeldi lögreglu sem varði í þrjár mínútur. Þeir segja lögreglumennina hafa beitt piparúða og rafbyssum og að Nichols hafi ekki getað varið sig.

Crump og Romanucci líktu atvikinu við ofbeldið sem lögregla beitti Rodney King árið 1991. Það atvik náðist einnig á myndband en lögreglumennirnir börðu King oftar en 50 sinnum með kylfum sínum og byssuskeftum. 

Lögreglumönnunum Justin Smith, Taddarius Bean, Demetrius Haley, Desmond Mill og Emmitt Martin III var sagt upp 15. janúar og hafa nú verið ákærðir vegna málsins. Þeir eru allir, ásamt Nichols, svartir á hörund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert