Þrettán ára skaut feðga

Íraelskir unglingar kveikja á kertum í minningu fórnarlamba skotárásarinnar á …
Íraelskir unglingar kveikja á kertum í minningu fórnarlamba skotárásarinnar á bænahúsið í gær. AFP/Gil Cohen-Magen

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lofar „skjótum“ og „sterkum“ viðbrögðum við tveimur árásum Palestínumanna í Jerúsalem í gær og fyrradag en þær voru gerðar í kjölfar árásar Ísraelshers á Vesturbakkanum sem kostaði níu mannslíf.

Skömmu fyrir fund þjóðaröryggisráðs Ísraels kvaðst forsætisráðherrann mundu grípa til nýrra aðgerða til að „berjast gegn hryðjuverkum“ auk þess sem talsmenn Ísraelshers lýstu því yfir að þeir myndu auka herstyrkinn á Vesturbakkanum í kjölfar atburðanna.

Sjö manns létust og þrír særðust í skotárás á bænahús í Austur-Jerúsalem í gær auk þess sem feðgar eru alvarlega sárir eftir að á þá var skotið í Silwan-hverfinu í borginni í dag. Hefur lögregla nú greint frá því að þrettán ára gamall palestínskur drengur hafi staðið að síðari skotárásinni. Vopnaðir vegfarendur skutu drenginn í kjölfar árásarinnar og liggur hann nú á sjúkrahúsi þar sem hann er enn fremur í haldi.

Sá sem gerði árásina á bænahúsið var skotinn til bana á vettvangi en kennsl hafa verið borin á hann sem Palestínumann frá Austur-Jerúsalem. Hefur lögregla handtekið rúmlega 40 manns í tengslum við árásirnar tvær og kveður Kobi Shabtai, ríkislögreglustjóri Ísraels, þær „einar skelfilegustu árásirnar sem við höfum orðið fyrir síðustu ár“.

The Times of Israel

Palestine Chronicle

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert