Sérsveitin leyst upp vegna morðsins á Tyre Nichols

Morðið hefur rist djúp sár í hjörtu Memphis-borgarbúa.
Morðið hefur rist djúp sár í hjörtu Memphis-borgarbúa. AFP/JOE RAEDLE

Ein sérsveit lögreglunnar í Memphis-borg í Bandaríkjunum, hefur verið leyst upp. Var sú ákvörðun tekin í kjölfar þess að liðsmenn hennar gerðust sekir um svo hrottalega handtöku, að hinn handtekni, Tyre Nichols, lést í kjölfarið vegna áverka. 

BBC greinir frá, en sérsveitin sem um ræðir ber heitið Sporðdreki (e. Scorpion) og voru liðsmenn hennar 50 talsins. Var hún stofnuð fyrir tveimur árum og ætlað að vera til taks og hafa sérstakt eftirlit í þeim hverfum sem glæpatíðni er hvað mest og spyrna gegn glæpagengjum og þjófnaði.

Nafngiftin er skammstöfun sem tekur mið af tilgangi sérsveitarinnar, sem var að endurheimta frið í hverfunum með aðgerðum gegn götuglæpum. 

Óljóst hvað olli æsingnum

Enn er óljóst hvaða umferðalagabrot Nichols á að hafa framið, að sögn Cerelyn Davis, lögreglustjóra í Memphis. 

Lögreglumennirnir, sem stóðu að handtökunni og hafa verið ákærðir vegna morðsins á Tyre Nichols, kveiktu ekki á búkmyndavélunum fyrr en þeir höfðu ákveðið að stöðva Nichols og því hafa ekki fengist upplýsingar um hvað þeim fór á milli í aðdraganda handtökunnar. 

Hefur þeim öllum verið varanlega vikið úr starfi. 

Lögeglustjórinn telur ljóst að eitthvað hafi komið upp á, sem hafi valdið því að lögregluþjónarnir urðu svo æstir. „Hann fer úr einum upp í tíu. Lögregluþjónar eru vanalega ekki svona æstir þegar þeir stöðva fólk í umferðinni. Við eigum því eftir að komast að því hvað gerðist sem olli þessum mikla æsingi strax í upphafi.“

Setja ítarlegar reglur

Upptökur úr búkmyndavélum lögreglumannanna hafa verið birtar og viðbrögðin hafa ekki á sér setið. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna lýsti því meðal annars yfir að myndbandið væri þess eðlis að það vekti eðlilega ofsalega reiði, en biðlaði þó til fólks að sína stilli vegna málsins. 

JB Smiley yngri, borgarráðsmaður í Memphis-borg, ávarpaði hóps fólks sem safnast hafði saman utan við ráðhúsið í gær í mótmælaskyni. Lýsti hann því yfir að nú væri lag fyrir borgina að setja ítarlegri viðbragðsreglur, í tengslum við atvik sem þessi. 

Mótmælt hefur verið í fleiri borgum víðs vegar um Bandaríkin.
Mótmælt hefur verið í fleiri borgum víðs vegar um Bandaríkin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert