Skriðdrekar frá Noregi væntanlegir

Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra kveðst vonast til þess að hægt …
Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra kveðst vonast til þess að hægt verði að senda Leopard-skriðdreka til Úkraínu fyrr en síðar. AFP/Petter Berntsen

Norðmenn munu senda hluta af Leopard 2-skriðdrekaflota sínum til Úkraínu „eins fljótt og verða má“, segir norski varnarmálaráðherrann Bjørn Arild Gram við AFP-fréttastofuna. Norðmenn eru í hópi nokkurra Evrópuþjóða sem hafa heitið Úkraínumönnum því að senda þeim skriðdreka til að styrkja varnir þeirra gegn rússneska innrásarhernum eftir að þýsk stjórnvöld heimiluðu að Leopard-drekarnir yrðu sendir.

Norðmenn eiga 36 Leopard 2-skriðdreka í vopnabúri sínu en óljóst er enn sem komið er, að sögn ráðherra, hve marga þeirra norsk yfirvöld hyggjast láta Úkraínumönnum í té.

Þjóðverjar hyggjast senda 14 dreka

„Það hefur ekki verið ákveðið. Mikilvægt er að samræmi sé með okkur og bandalagsríkjum okkar svo þessi aðstoð ríði baggamuninn fyrir Úkraínu,“ segir Gram og kveðst vonast til að af afhendingu geti orðið hið fyrsta. Ekki er þó talið að skriðdrekarnir verði komnir í hendur Úkraínumanna fyrr en síðari hluta marsmánaðar.

Boris Pistorius, starfsbróðir Gram í Þýskalandi, sagði í síðustu viku að Þjóðverjar stefndu að því að senda fjórtán Leopard-skriðdreka til Úkraínu nálægt mánaðamótunum mars-apríl í kjölfar ítrekaðra beiðna frá Volódímír Selenskí Úkraínuforseta síðustu mánuði.

Þá barst orð um það frá Bandaríkjunum í síðustu viku að þarlend stjórnvöld hygðust senda 31 Abrams-skriðdreka til Úkraínumanna sem nú undirbúa harða gagnsókn að Rússum í suður- og austurhluta Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka