Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, verður viðstödd jarðarför Tyre Nichols sem fer fram í dag.
Nichols lést í byrjun janúar eftir áverka sem hann hlaut við handtöku. Fimm lögreglumenn hafa verið ákærðir fyrir morð.
The Guardian greinir frá því að jarðarförin fari fram í Memphis-borg í Bandaríkjunum, en auk Harris verða fjölskyldur Breonna Taylor og George Floyd, sem voru myrt af lögreglu árið 2020, viðstödd.
Móðir og stjúpfaðir Nichols töluðu við Harris í síma í gær og buðu henni í jarðarförina. Varaforsetinn vottaði þeim samúð og bauð þeim stuðning. Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi við fjölskylduna í síðustu viku.
Myndskeið af handtöku Nichols var birt á föstudag. Í kjölfarið hefur almenningur kallað eftir að lögreglumenn og saksóknarar segi satt og rétt frá því sem gerðist er hann var handtekinn þar sem að fyrstu lögregluskýrslur voru ekki í samræmi við það sem sést á myndskeiðunum.
Ben Crump, lögmaður fjölskyldu Nichols, sagði í gær að lögreglan hafi ekki verið heiðarleg við móður Nichols um atburðinn.
Fjölskyldan kom saman í gærkvöldi í Mason Temple-kirkjunni í Memphis þar sem Martin Luther King jr. hélt sína síðustu ræðu áður en hann var myrtur árið 1968. Þar upplýstu þau um stöðu málsins og minntust Nichols sem var 29 ára gamall er hann lést.