Lögreglumenn framkvæma nú húsleit í strandhúsi Joe Bidens Bandaríkjaforseta í Delaware, en það er lokahnykkurinn í rannsókn á mögulegri varðveislu leynilegra skjala með óviðunandi hætti.
Húsleitin fer fram með samþykki forsetans sem hefur frá því málið kom upp sagt að hann ætti í fullri samvinnu við yfirvöld.
Leitin hófst í kjölfar þess að leynileg skjöl fundust í húsnæði í Washington sem Biden notaði sem skrifstofu áður en hann varð forseti. Eru skjölin frá valdatíð Baracks Obama, þegar Biden gegndi embætti varaforseta.
Dómsmálaráðuneytið hefur skipað sérstakan saksóknara til þess að stýra óháðri rannsókn á málinu. Því svipar til rannsóknar á stóru safni leyniskjala sem fundust á heimili Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Flórída.