Blinken hættir við heimsókn til Kína

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP/Stefani Reynolds

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur frestað helgarheimsókn til Peking eftir að meintur kínverskur njósnaloftbelgur fannst í bandarískri lofthelgi, að sögn bandarísks embættismanns í dag.

Í gær fylgdust bandarísk yfirvöld grannt með loftbelgnum og íhuguðu að skjóta hann niður en hætt var við þá ákvörðun vegna þess að talið var að brak úr loftbelgnum gæti verið fólki á jörðu niðri skeinuhætt.

Hefði tekið dagskrána yfir

Blinken og starfsmaður utanríkisráðuneytisins ræddu við kínverska sendiráðið á miðvikudagskvöld og aftur í morgun og við það tækifæri tjáði Blinken æðsta embættismanni utanríkismála í Kína, Wang Yi, að stefna og staðsetning blöðrunnar í bandarískri lögsögu væri „óásættanleg“ að sögn embættismanns utanríkisráðuneytisins.

Blinken mun ferðast til Kína þegar „aðstæður eru góðar“ og Washington treystir sér til að halda uppi samskiptum við Peking þrátt fyrir að hann hafi aflýst helgarferðinni, að sögn bandarísks embættismanns á föstudag.

Embættismaðurinn, sem talaði undir nafnleynd við AFP-fréttastofuna, sagði að ósætti vegna kínverska loftbelgsins myndi hafa „tekið yfir dagskrá Blinken“ ef hann hefði farið núna.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert